Af hverju þarf að setja lög gegn einelti?
Skrifað: 27. október, 2011 Filed under: Frétt Færðu inn athugasemdGrein sem birtist í Morgunblaðinu þann 27. október 2011:
Einelti drepur. Við höfum séð nokkur dæmi um slíkt í fjölmiðlum undanfarin ár. Þetta er svo sem ekkert nýtt. Það eina sem er nýtt við þetta er að núna er byrjað að fjalla um mál sem áður var þagað um. Ég spái því að þetta muni aukast enn frekar nú þegar þagnarmúrinn er rofinn. Og það sem er hættulegt við umræðuna er að hún kemur þeirri hugmynd inn hjá börnunum að sjálfsvíg sé raunhæfur möguleiki í stöðunni.
Hvað gæti verið verra en að vera útilokaður af jafningjum sínum? Ætli það sé nokkur sársauki meiri heldur en slík niðurlæging? Að vera barinn og niðurlægður daglega af skólafélögum og fullorðnir gera lítið sem ekkert til að hjálpa þér. Það hafa margir verið í þessum sporum og það eru margir í þessum sporum í dag. Það er ekki endilega þannig að fullorðnir vilji ekki hjálpa. Oft er það svo að fullorðnir sjá ekki hversu alvarlegt ástandið er fyrr en það er orðið of seint að bregðast við. Börn sem hafa orðið fyrir fordómum og fengið á sig brennimerkingu frá samfélaginu eiga mjög erfitt með að snúa við því orðspori. Oft er niðurstaðan sú að þolandi eineltis þarf að flýja skólann. En það hefur þó reynst góð lausn í mörgum tilfellum. Börn eiga oftast nýtt tækifæri í nýjum skóla.
En af hverju þurfa málin að þróast á þennan veg? Af hverju er ekki gripið inn í málin fyrr? Eitt er að börn eru oft ekki tekin alvarlega. Ef barn verður vitni að slælegum viðbrögðum fullorðins við einelti þá er líklegt að það hætti að treysta á fullorðna. Börn, líkt og við flest, leitum ekki með okkar vandamál til einhvers sem við treystum ekki. Á sama tíma refsa gerendur eineltis þolandanum fyrir að segja frá. Er nema von að þolendur læri það fljótt að það getur haft verri afleiðingar að kjafta frá?
Stundum eru gerendur eineltis algjörlega óforskammaðir og einbeittir í sínum óþokkaskap. Þeir neita fyrir allt og ljúga jafnvel að foreldrum sínum. Það vill auðvitað ekkert foreldri trúa því að þeirra barn sé gerandi eineltis. Því miður vill það gerast að foreldrar styðja börnin sín í eineltinu með því að neita að vinna með skólanum og ganga jafnvel svo langt að hóta skólanum og starfsmönnum hans. Þegar slík staða kemur upp þá getur skólinn ekkert gert. Skólinn getur ekki vísað gerendum eineltis úr skóla nema í mjög stuttan tíma vegna þess að það er skólaskylda í landinu. Þetta þýðir þá aftur að gerandinn verður að víkja með tilheyrandi kostnaði fyrir fjölskyldu þolandans.
Er einhver sanngirni í þessu? Eiga þolendur eineltis að þurfa að flýja skóla sinn vegna þess að þeir eiga það á hættu að mæta gerendum sínum, sem hafa beitt þá jafnvel líkamlegu ofbeldi og pyntingum? Þetta er eitt af því sem verður að breyta. En það verður ekki gert nema með lagasetningu. Það verður að breyta lögum á þann hátt að skóli eða barnaverndaryfirvöld geti vísað gerendum eineltis úr skóla eins lengi og þörf krefur. Það er ólíðandi að gerendur og þolendur séu látnir takast í hendur og svo eigi lífið að halda áfram eins og ekkert hafi í skorist. Reynslan sýnir að það virkar aldrei þannig.
Þolendur og forráðamenn þeirra eiga að hafa rétt á því að kæra eineltismál til barnaverndaryfirvalda og þar sé brugðist við snarlega m.a. með því að fjarlægja gerendur úr skóla meðan málin eru rannsökuð. Þegar ég tala hér um gerendur á ég við þá sem hafa orðið uppvísir af hegðun sem þætti glæpsamleg ef um fullorðna einstaklinga væri að ræða. Þar sem einelti er ofbeldi gegn börnum ættu eineltismál að vera barnaverndarmál, án undantekninga. Það er mikil ábyrgð hjá þeim sem vinna með börnum að tilkynna ekki um illa meðferð á börnum til barnaverndaryfirvalda. Í slíkum tilfellum ætti að vera hægt að sækja starfsmenn skóla eða aðra sem vinna með börnum til saka, í það minnsta til að greiða skaðabætur vegna vanræsklu sinnar. Þeir sem vita af illri meðferð gegn börnum en bregðast ekki við þurfa að bera ábyrgð. Ef skólum er gert mögulegt að vísa ofbeldisfullum gerendum eineltis úr skóla, þá ættu starfsmenn skóla að vera komnir með öll vopnin í hendurnar sem þarf til að sinna skyldu sinni og vernda börnin.
Að lokum vill ég minna á eineltisdaginn sem haldinn verður 8. nóvember n.k. En þá ætla nokkrir ráðamenn þjóðarinnar að undirrita sáttmála þar sem því er lofað að vinna gegn einelti. Forvarnir gegn einelti eru nauðsynlegar, en þær eru aðeins önnur hliðin á lausn vandans. Hin hliðin eru bættar aðgerðir til að takast á við einelti þegar það kemur upp. Það er margt í kerfinu sem hindrar það að eineltismál séu leyst á farsælan máta. Það þarf lagasetningu til að breyta kerfinu. Lög gegn einelti eru í gildi í Noregi, Svíþjóð og í flestum ríkjum Bandaríkjanna. Á íslandi eru hinsvegar engin lög gegn einelti. Nú hefur verið stofnaður hópur um þetta málefni. Eineltislög Strax! Málefni hópsins eru unnin að stórum hluta frá systursamtökum í USA sem kalla sig Bully Police. Markmið hópsins Eineltislög Strax! má lesa á síðunni http://www.einelti.com
f.h. hópsins Eineltislög Strax!
Viðar Freyr Guðmundsson