Fyrirgefðu en gerði ég þér eitthvað?

Grein sem birtist í Morgunblaðinu 4. nóvember 2011:

Ég er alin upp í litlu sveitarfélagi út á landi hjá ömmu minni, afa og yndislegum frænda. Ég væri ekki hér ef þeirra hefði ekki notið við. Svo skrítið sem það er þá snúast minningar mínar úr skóla um einelti, hvað ég þurfti að þola mikið af stríðni og niðurlægingu. Þegar maður er lagður í einelti þá kemst ekkert annað að í huga manns, það verður allt svart. Dagurinn fer að snúast um það hvort maður eigi að fara í skólann þann daginn, hvort eitthvað verði betra í dag en í gær og hvaða leið ég geti farið til að sleppa við púkana sem biðu á hverju götuhorni. Hvað gerði ég ykkur sem sitjið fyrir mér hvert sem ég fer? Hvað sagði ég sem særði ykkur og á þess vegna skilið niðurlægingu? Ég biðst afsökunar á því ef ég hef verið gerandi án þess að gera mér grein fyrir því. Lítið í eigin barm og verið ábyrg gerða ykkar. Þetta er það sem mótar mann til lífstíðar.

Bekkurinn minn skiptist í 3 hópa, gerendur eineltis, þolendur og þann hlutlausa. Og þá spyr maður, hver er sekur um einelti? Er það gerandinn, er það hlutlausi hópurinn sem ekkert þóttist sjá, kennarar og skólastjóri eða er það þolandinn sem bauð upp á að vera lagður í einelti? Gerendahópurinn var ekki stór en hann var áhrifamikill og ofsalega fyndinn á kostnað annarra með niðurlægingu að aðalmarkmiði. Því meiri niðurlæging, því meira gaman hjá þeim.

Skólastjórnendur litu framhjá þessu eða litu á þetta sem hverja aðra stríðni og tóku stundum þátt. Tvenn tilsvör kennara skólans eru mér alltaf ofarlega í huga: „Hvað skilurðu þetta ekki, ég er búin að segja þér þetta einu sinni, þú verður bara að taka eftir“ og „Ég hjálpa frekar þeim sem kunna eitthvað en þeim sem ekkert kunna“. Þegar ég ætlaði að hætta í skóla í 9. bekk var svarið að þá fengi ég ekki að fara í skólaferðalagið að ári. Það var ekkert spáð í það af hverju ég vildi hætta, hvað væri að. Það var bara litið á sem svo að þetta væri bara einhver leti í mér. Hvað segir þetta um þann skólastjóra?

Ég veit að amma og afi hefðu ekki látið þetta viðgangast ef þau hefðu vitað eitthvað um hvað var í gangi. Til hvers að vera að bera vandamálin á borð fyrir þau þegar þau eru manni sjálfum að kenna? Maður skapaði það sjálfur að vera lagður í einelti eða það var mín trú á þeim tíma. Það hefði líka örugglega gert illt verra því það var ekki vel séð að vera klöguskjóða. Á unglingsárunum hætti ég að læra því mér var sagt að það þjónaði engum tilgangi. Ég var svo vitlaus sagði kennarinn. Fór að reykja og drekka og hélt að það væri aðgangseyrir að friði en svo var nú alls ekki. Oftar en einu sinni og oftar en tvisvar var reynt að lokka mann inn í bíla í dimmum húsasundum. 11-12 ára varð ég fyrir kynferðislegu ofbeldi af gömlum manni þar sem ég var gestkomandi í húsi í bænum. Ég vil meina að það flokkist líka undir einelti.

Ég get ekki séð að neitt hafi breyst í þessum efnum á þessum rúmu 30 árum sem liðin eru frá því ég lauk grunnskóla. Enn er verið að níðast á fólki með niðurlægingu, lokka ung börn upp í bíla og beita þau kynferðisofbeldi. Mér finnst það óþolandi ábyrgðarleysi hjá stórasta landi í heimi að líta fram hjá þessu stóra vandamáli sem er búið að viðgangast í öll þessi ár. Ég veit að mjög margir hafa svipaða sögu að segja og margar mun verri. Hvar eru gerendurnir sem þegja þunnu hljóði í þessari umræðu? Af hverju heyrir enginn neyðaróp þolenda eineltis? Einelti er ofbeldi þó það sjáist ekki alltaf blóð og beinbrot, það blæðir úr sálinni alla tíð. Ég hef ekki enn getað sett þannig plástur á sálina að hann haldi vel. Ábyrgðin hlýtur að vera í höndum fullorðinna: Foreldra, forráðamanna og skólastjórnenda. Börnin okkar eru jú skyldug að sækja skóla og eru þar oft meira en heima hjá sér.

Því miður er víða pottur brotinn í skólum landsins í því sem snýr að eineltismálum eins og fjölmörg dæmi sanna sem komið hafa upp . Þarf virkilega að koma til sjálfsvíga barna til að menn vakni af þægindablundinum? Mér finnst það eigi að flokkast sem brot í starfi að líta framhjá og þagga niður eineltismál sem upp koma. Ég tel það mikla og alverlega vanrækslu að hugsa ekki vel um börnin á skólatíma, vernda þau og hlusta á það sem þau hafa að segja. Endurtekning af því tagi á að þýða brottrekstur. Það er óréttlátt að þolandinn þurfi að flýja skólann. Hvað þarf mikið að ganga á til að fólk fari að hugsa af einhverri alvöru um þessi mál?

Foreldrar eru þeir sem börn elska og líta upp til og eru þeirra fyrirmynd. Börn taka allt upp sem þeir segja og gera.Við blótum ekki í návist þeirra en er þá í lagi að segja: Jósefína í næsta húsi er svo ljót og leiðinleg, alveg eins og mamma hennar, að hún er ekki velkomin í afmæli dóttur minnar? Börnin læra það sem fyrir þeim er haft, svo foreldrar: pössum okkur hvað við segjum í þeirra návist og tölum fallega um alla.

Kennum börnunum að bera virðingu fyrir öllum mönnum og dýrum, samkennd, kurteisi og ást. Tölum við þau og hlustum. Börnin eru okkar gimsteinar sem við erum bara með í láni og því miður vitum við aldrei hvað lengi.

 

Höfundur er verslunarmaður og er í hóp sem heitir Eineltislög strax.



Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s