Fréttatilkynning: Heimildamynd um einelti dreift ókeypis í alla grunnskóla.
Skrifað: 17. febrúar, 2014 Filed under: Frétt Færðu inn athugasemdÞann 27. febrúar nk. verður heimildamyndin Allt Um Einelti frumsýnd í kvikmyndahúsinu Bíó Paradís kl 16:00. Samhliða frumsýningu mun myndin verða opnuð almenningi á heimasíðu verkefnisins Einelti.com og inni á VOD kerfum símfyrirtækjana. Frumsýningin verður haldin við hátíðlega athöfn þar sem boðið hefur verið þingmönnum, fulltrúum sveitarfélaga, menntastofnana og félagasamtaka fólks í menntunar- og uppeldisgeiranum ásamt fjölmörgum öðrum sem hafa látið sig þessi mál varða. Sérstakur gestur sýningarinnar verður borgarstjórinn í Reykjavík, en hann mun opna fyrir sýningu myndarinnar inni á vefsíðu hennar einelti.com.
Allt Um Einelti er 90 mínútna löng fræðslumynd fyrir fullorðna, sem fjallar um einelti meðal grunnskólabarna út frá ýmsum hliðum og fer yfir nokkrar aðferðir til að draga úr því. Í myndinni er rætt við gerendur, þolendur og fagfólk ásamt því að skoðaðar eru ýmsar rannsóknir tengdar efninu. Gerð myndarinnar var meðal annars styrkt af Mannréttindaráði Reykjavíkur, hlaut
Húmanistaviðurkenningu Siðmenntar 2012 og var tilnefnd til Foreldraverðlauna Landssamtaka Foreldra: Heimili og Skóli 2013.
Myndinni verður sem áður segir dreift ókeypis til að sem flestir eigi kost á fræðslu um þetta mikilvæga málefni. Í framhaldi verður send tilkynning á alla grunnskóla landsins, ungmennafélög og aðra aðila sem vinna með börnum með hvatningu um að kynna sér efni myndarinnar. Er það von framleiðenda myndarinnar að þetta muni skila sér í því að umræðan um einelti meðal barna muni færast upp á næsta stig.
Nánari upplýsingar:
vidar (hjá) einelti.com
sími: 821-8721
Um frumsýningu inni á vef Bíó Paradís: http://bioparadis.is/2014/02/20/allt_um_einelti/
Stikla úr myndinni:
Fyrirgefðu en gerði ég þér eitthvað?
Skrifað: 6. nóvember, 2011 Filed under: Frétt Færðu inn athugasemdGrein sem birtist í Morgunblaðinu 4. nóvember 2011:
Ég er alin upp í litlu sveitarfélagi út á landi hjá ömmu minni, afa og yndislegum frænda. Ég væri ekki hér ef þeirra hefði ekki notið við. Svo skrítið sem það er þá snúast minningar mínar úr skóla um einelti, hvað ég þurfti að þola mikið af stríðni og niðurlægingu. Þegar maður er lagður í einelti þá kemst ekkert annað að í huga manns, það verður allt svart. Dagurinn fer að snúast um það hvort maður eigi að fara í skólann þann daginn, hvort eitthvað verði betra í dag en í gær og hvaða leið ég geti farið til að sleppa við púkana sem biðu á hverju götuhorni. Hvað gerði ég ykkur sem sitjið fyrir mér hvert sem ég fer? Hvað sagði ég sem særði ykkur og á þess vegna skilið niðurlægingu? Ég biðst afsökunar á því ef ég hef verið gerandi án þess að gera mér grein fyrir því. Lítið í eigin barm og verið ábyrg gerða ykkar. Þetta er það sem mótar mann til lífstíðar.
Bekkurinn minn skiptist í 3 hópa, gerendur eineltis, þolendur og þann hlutlausa. Og þá spyr maður, hver er sekur um einelti? Er það gerandinn, er það hlutlausi hópurinn sem ekkert þóttist sjá, kennarar og skólastjóri eða er það þolandinn sem bauð upp á að vera lagður í einelti? Gerendahópurinn var ekki stór en hann var áhrifamikill og ofsalega fyndinn á kostnað annarra með niðurlægingu að aðalmarkmiði. Því meiri niðurlæging, því meira gaman hjá þeim.
Skólastjórnendur litu framhjá þessu eða litu á þetta sem hverja aðra stríðni og tóku stundum þátt. Tvenn tilsvör kennara skólans eru mér alltaf ofarlega í huga: „Hvað skilurðu þetta ekki, ég er búin að segja þér þetta einu sinni, þú verður bara að taka eftir“ og „Ég hjálpa frekar þeim sem kunna eitthvað en þeim sem ekkert kunna“. Þegar ég ætlaði að hætta í skóla í 9. bekk var svarið að þá fengi ég ekki að fara í skólaferðalagið að ári. Það var ekkert spáð í það af hverju ég vildi hætta, hvað væri að. Það var bara litið á sem svo að þetta væri bara einhver leti í mér. Hvað segir þetta um þann skólastjóra?
Ég veit að amma og afi hefðu ekki látið þetta viðgangast ef þau hefðu vitað eitthvað um hvað var í gangi. Til hvers að vera að bera vandamálin á borð fyrir þau þegar þau eru manni sjálfum að kenna? Maður skapaði það sjálfur að vera lagður í einelti eða það var mín trú á þeim tíma. Það hefði líka örugglega gert illt verra því það var ekki vel séð að vera klöguskjóða. Á unglingsárunum hætti ég að læra því mér var sagt að það þjónaði engum tilgangi. Ég var svo vitlaus sagði kennarinn. Fór að reykja og drekka og hélt að það væri aðgangseyrir að friði en svo var nú alls ekki. Oftar en einu sinni og oftar en tvisvar var reynt að lokka mann inn í bíla í dimmum húsasundum. 11-12 ára varð ég fyrir kynferðislegu ofbeldi af gömlum manni þar sem ég var gestkomandi í húsi í bænum. Ég vil meina að það flokkist líka undir einelti.
Ég get ekki séð að neitt hafi breyst í þessum efnum á þessum rúmu 30 árum sem liðin eru frá því ég lauk grunnskóla. Enn er verið að níðast á fólki með niðurlægingu, lokka ung börn upp í bíla og beita þau kynferðisofbeldi. Mér finnst það óþolandi ábyrgðarleysi hjá stórasta landi í heimi að líta fram hjá þessu stóra vandamáli sem er búið að viðgangast í öll þessi ár. Ég veit að mjög margir hafa svipaða sögu að segja og margar mun verri. Hvar eru gerendurnir sem þegja þunnu hljóði í þessari umræðu? Af hverju heyrir enginn neyðaróp þolenda eineltis? Einelti er ofbeldi þó það sjáist ekki alltaf blóð og beinbrot, það blæðir úr sálinni alla tíð. Ég hef ekki enn getað sett þannig plástur á sálina að hann haldi vel. Ábyrgðin hlýtur að vera í höndum fullorðinna: Foreldra, forráðamanna og skólastjórnenda. Börnin okkar eru jú skyldug að sækja skóla og eru þar oft meira en heima hjá sér.
Því miður er víða pottur brotinn í skólum landsins í því sem snýr að eineltismálum eins og fjölmörg dæmi sanna sem komið hafa upp . Þarf virkilega að koma til sjálfsvíga barna til að menn vakni af þægindablundinum? Mér finnst það eigi að flokkast sem brot í starfi að líta framhjá og þagga niður eineltismál sem upp koma. Ég tel það mikla og alverlega vanrækslu að hugsa ekki vel um börnin á skólatíma, vernda þau og hlusta á það sem þau hafa að segja. Endurtekning af því tagi á að þýða brottrekstur. Það er óréttlátt að þolandinn þurfi að flýja skólann. Hvað þarf mikið að ganga á til að fólk fari að hugsa af einhverri alvöru um þessi mál?
Foreldrar eru þeir sem börn elska og líta upp til og eru þeirra fyrirmynd. Börn taka allt upp sem þeir segja og gera.Við blótum ekki í návist þeirra en er þá í lagi að segja: Jósefína í næsta húsi er svo ljót og leiðinleg, alveg eins og mamma hennar, að hún er ekki velkomin í afmæli dóttur minnar? Börnin læra það sem fyrir þeim er haft, svo foreldrar: pössum okkur hvað við segjum í þeirra návist og tölum fallega um alla.
Kennum börnunum að bera virðingu fyrir öllum mönnum og dýrum, samkennd, kurteisi og ást. Tölum við þau og hlustum. Börnin eru okkar gimsteinar sem við erum bara með í láni og því miður vitum við aldrei hvað lengi.
Höfundur er verslunarmaður og er í hóp sem heitir Eineltislög strax.
Einelti er dauðans alvara
Skrifað: 6. nóvember, 2011 Filed under: Frétt Ein athugasemdGrein sem birtist á DV.is 2. nóvember 2011:
Þann 8. Nóvember 2011 verður haldin eineltisdagur, dagur sem ætlaður er til að minna á skelfilegar afleiðingar eineltis. Ég vil segja mína sögu hverjar afleiðingar eineltið hafði fyrir mig.
Ég er fædd og uppalin í litlum bæ og þegar ég var 12 ára þá byrjaði eineltið ég var lögð í einelti í mörg ár. Ég fór að fitna og það var fljótlega notað gegn mér. Ég var kölluð ljótum nöfnum t.d fituklessa, feita ógeð og andstyggileg skilaboð skrifuð á skólaborðið hjá mér. Þannig byrjaði dagurinn, einhver sá ástæðu til að finna að mér og segja mér að ég sé ómöguleg. Þetta er ekki það sem unglingur á að þurfa að þola einmitt þegar álit jafnaldra skiptir jafn miklu máli. Þarna mótaðist sjálfsmynd mín. Á sama tíma veiktist faðir minn alvarlega og ég fór að finna til þunglyndis sem ágerðist með áframhaldandi einelti. Þegar ég kom heim úr skólanum grét ég og vildi ekki fara í skólann meir.
Ég byrjaði að borða meira og fitnaði meira í kjölfarið.
Þegar ég byrjaði í gagnfræðiskólanum byrjaði ég að rífa kjaft og byggði þannig múr utan um mig
Skólinn sagði að eineltið væri mér að kenna af því ég væri svo kjaftfor. Það að rífa kjaft var bara eitt af mínum leiðum til þess að vernda sjálfa mig. Það var margoft talað við skólayfirvöld en þau virtust alltaf koma sökinni yfir á mig. Jafnvel þegar skólatölvan var notuð til að senda skilaboð til mín um að ég væri ómöguleg var ekkert hægt að gera, ekki hægt að finna þann sem sendi skilaboðin og þau voru ljót
Þó ég yrði ekki fyrir barsmíðum þá varð ég fyrir andlegu ofbeldi sem kom fram í að horft var á mig á leiðinlegan hátt og síðan var hvíslast á og oft fékk ég ekki að vera með ef eitthvað átti að gera.
Af hverju breytist ljúf og góð stelpa í það að vera kjaftfor frekja? Af hverju fer hún að einangra sig og af hverju hættir hún að mæta í skólann? Það ásamt því að oft var kvartað um eineltið við skólastjórann hefði átt að vera skólanum aðvörun.
Þetta eru svo augljós merki, af hverju pældu skólayfirvöld ekkert í því.
Dæmi um hvernig skólinn tók á einu máli:
Skólabróðir gat ekki séð mig án þess að segja við mig að hann óskaði þess að ég fengi krabbamein og dæi, notaði öll tækifæri til þess, hvíslaði þessu að mér hvenær sem hann gekk framhjá mér eða hitti mig. Vanlíðanin útaf þessu var hræðileg og ég sagði foreldrum mínum frá þessu, þau töluðu við skólastjóra og hann kallaði saman fund.
Foreldrar, skólastjóri og kennari voru kallaðir á fundinn og það var talað um þetta og strákurinn kallaður til. Skólastjórinn sagðist ekki trúa þessu því þetta væri svo góður strákur. Sennilega hélt hún að ég væri að búa þetta til, en í ljós kom svo var ekki.
Á fundinum viðurkenndi strákurinn þetta, hann var látinn lofa því að gera ekki slíkt aftur og svo var tekið í höndina á honum og honum þakkað fyrir að koma.
Svo eftir fundinn þá sagði skólastjórinn „Svo vona ég að við sjáum þessa ljúfu, góðu stelpu aftur eins og hún var áður“ Þetta segir mér að skólastjórinn tók eftir að ég hafði breyst en aðhafðist ekkert, spurði einskis og setti þetta ekki í samhengi við eineltið sem þó var oft búið að kvarta undan við hana.
Ég fór að skrópa í skólanum, svaf í tímum og byrjaði að skera mig til þess að losna við sársaukann
Ég kláraði 10.bekk en gat ekki hugsað mér að halda áfram í skóla með þessu fólki sem
lét mér líða svona illa. Um haustið þegar ég var 16 ára þá var ég lögð inná Bugl vegna þunglyndis og kvíða og var þar um tíma.
Ég byrjaði að reykja hass og fikta með önnur eiturlyf þegar ég var 17 ára. Um leið og ég gat eða þegar ég varð 18 ára þá flutti ég til Reykjavíkur í eigin íbúð og fór að vinna ég var þar í hálft ár.
Ég var lögð inna bráðadeild af því að ég reyndi að fyrirfara mér. Ég hélt áfram að skera mig og var aftur lögð inná bráðageðdeild 2006 þar reyndi ég einnig að fyrirfara mér þar var ég í langann tíma því ég var orðin svo veik af þunglyndinu. Þá fluttu foreldrar mínir til Reykjavíkur og ég flutti til þeirra.
Ég hef reynt að fyrirfara mér nokkrum sinnum. Á þessum árum var ég greind með alvarlegt þunglyndi, kvíða og mikla félagsfælni sem hægt er að rekja til þess að skilaboðin meðan á eineltinu stóð voru þau að ég væri ekki nógu merkileg manneskja, ég ætti jafnvel ekki að vera til.
Ég hitti sálfræðing og geðlækni vikulega og ég er á lyfjum við þessu til þess að halda mér í jafnvægi
Núna er ég alltof þung og einangra mig því. Ég er með mikla félagsfælni og forðast fólk, jafnvel ættingja mína. Ég fer ekki í heimsóknir eða veislur, því ég er mjög hrædd við þessa óþægilegu þögn sem myndast alltaf af því fólk spyr mig hvað ég sé að gera? Hvort ég sé í skóla eða vinnu?
Ég get ekkert sagt nema það að ég sé búin að vera veik síðastliðin 5 ár. Þá kemur þessi þögn og fólk veit ekkert hvað það á að segja.
Ég er með mörg ör á handleggjunum eftir að hafa skorið mig. Þegar ég fer í niðursveiflu þá á ég til að skera mig til þess að finna eitthvað annað en vanlíðina og tómleikan inn í mér.
Í dag er ég 24 ára og er búin að vera meira og minna veik síðan ég var 15 ára og oft verið lögð inn. Þetta er erfið barátta og eilífðar verkefni og oft sér maður ekkert ljós, ekkert nema myrkrið en svo inná milli koma tímabil þar sem maður getur séð smá glætu. Ég bið á hverjum degi að þetta verði góður dagur, án þunglyndis og án þess að hugsa hversu heitt ég vil deyja.
Ég get ekki unnið lengur og er því á örorkubótum, mig langar alls ekki til að vera á bótum því mig langar til þess að vera í vinnu. Fyrir rúmum 7 mánuðum þá reyndi ég að fyrirfara mér með því að taka of stóran skammt af lyfjum og ég lenti á gjörgæslu og ég dó næstum því.
Í dag er ég stundum ánægð með að hafa lifað en oftast óska ég þess að ég hafi bara dáið. Mest af þessu er eineltinu að kenna, eineltið mótaði mig. Fyrir eineltið þá var ég ung og glöð stelpa sem átti framtíðina fyrir sér, mér gekk ágætlega í skólanum og ætlaði mér eitthvað mikið.
Ég hef ekki getað fyrirgefið þessum krökkum sem lögðu mig í einelti og ég held að ég muni aldrei geta það því þau eyðilögðu líf mitt en ég er samt að reyna að byggja mig upp aftur og hef reyndar verið að reyna það í mörg ár og það er alltof oft sem ég sé ekkert ljós allt er svart
Af hverju þurfum við að vera andstyggileg hvort við annað.
Einu sinni þegar ég var stopp á rauðu ljósi benti ókunnug stelpa mér á að skrúfa rúðuna niður ég hélt hún ætlaði að benda mér á að eitthvað væri að, en þegar ég gerði það notaði hún tækifærið til að uppnefna mig og segja hluti til að særa. Þetta var mannsekja sem ég hafði aldrei séð áður.
Hvað kemur fólki til að gera svona hluti? Af hverju þarf ókunnugt fólk að vera að skipta sér af öðrum til þess eins að láta þeim líða illa? Ég hef stundum hugsað hvort henni hafi liðið vel á eftir. Hún veit ekki hvaða afleiðingar þetta hafði en þær voru slæmar. Af hverju er ekki hægt að sjá manneskjuna sem manneskju? Vegna þessarar stelpu og annara álíka forðast ég að fara út og er því hálfgerður fangi á eigin heimili og þegar ég lendi í svona þá fer ég í þunglyndis kast og ég veit ekki hversu mikið þunglyndið verður eða hversu lengi kastið verður eða hversu lengi ég verð inniliggjandi í þetta skipti. Ég er hrædd um að lenda aftur inná geðdeild því það þýðir bara sjálfsvígs hugsanir og mikla vanlíðan
Ég fékk sjálfsvígshugsanir á hverjum degi í rúm 10 ár. Getiði ýmindað ykkur að hugsa á hverjum degi að það væri bara best fyrir alla ef ég myndi hverfa.
Núna í dag hef ég verið að vinna í mér og hef ekki fengið þunglyndiskast eða sjálfsvígshugsanir í rúma 2 mánuði og ég sé ljós handan við hornið þó ég detti stundum í það að hugsa hvað allt væri auðveldara ef ég hefði bara dáið fyrir 7 mánuðum en ég er fljót að koma mér uppúr því og reyna að líta á björtu hliðarnar. En eineltið, þunglyndið og sjálfsvígshugsanirnar eru eitthvað sem ég myndi ekki óska mínum versta óvini, ekki einu sinni þeim sem lögðu mig í einelti.
Núna er ég að vinna í því ásamt öðrum að reyna að gera eitthvað í þessum eineltismálum. Að reyna að koma lögum gegn einelti því einelti er glæpur gegn manneskjunni og ætti því að vera í lögum.
Meðan ekki hefur náðst fullkominn sigur á eineltinu reynum þá að muna að hver einasta manneskja á rétt á að hún sé virt sem einstaklingur og að komið sé fram við hana af virðingu og réttlæti. Foreldrar hvort sem börn ykkar eru lögð í einelti eða ekki, talið um það við þau hversu alvarlegt það er.
Það á enginn heldur að standa þegjandi hjá og horfa uppá að einelti sé viðhaft.
Fólk verður að gera sér grein fyrir því hvað einelti gerir því einelti getur eyðilagt líf og það getur tekið líf eins og það hefur margoft gert, einelti er dauðans alvara.
Höfundur er 24 ára fórnarlamb eineltis og meðlimur hópsins Eineltislög Strax!
Ég skipti máli – Burt með einelti
Skrifað: 30. október, 2011 Filed under: Frétt Færðu inn athugasemdOkkur var að berast tilkynning:
Í tilefni af Baráttudegi gegn einelti þann 8. nóvember n.k. verður útgáfukynning hjá Lífsýn forvarnir og fræðsla í Mjóddinni klukkan 16:00 – 18:00 þar sem verður kynning á okkar starfsemi og flutt lög af nýútkomnum geisladisk sem ber nafnið Minningar sem kom út núna í september s.l. og er afrakstur forvarnarverkefnis okkar sem ber nafnið „Ég skipti máli´´. Diskurinn var gefin út til minningar um allt það góða fólk sem hefur tekið líf sitt og látið lífið langt fyrir aldur fram.
Lífsýn forvarnir og fræðsla hefur undanfarin 5 ár unnið markvisst og árangursríkt starf með börnum og unglingum sem standa illa félagslega, hafa orðið fyrir einelti eða öðru mótlæti í lífinu. þar sem ungu fólki gefst tækifæri að vinna í sinni sjálfsmynd útfrá þeirra áhugasviði og hafa krakkarnir sem tóku þátt í þessu verkefni mörg hver verið hjá okkur á TST sjálfstyrkingarnámskeiði og var þetta liður í því að styrkja þau í gegnum þeirra áhugamál sem er tónlist og söngur, alls tóku 25 einstaklingar þátt í disknum 14 ungmenni á aldrinum 10-17 ára ásamt fjölmörgum gestum okkar.
Söngvarar á disknum eru t.d. Helga Möller, Lay Low , Kristján Gíslason, Bergsveinn Arilíusson, Sigurður Helgi Pálmason og margir fleiri góðir.
þeir sem munu spila og syngja í Mjóddinni eru : Kristján Gíslason, Elvar Bragason, Atli Valur Arason , Sóley Salóme Einarsdóttir , Adolf Marinósson, Sigurjón Tómas Hjaltason, Guðný Inga Eiríksdóttir og Emma Lovísa Diego Skjaldardóttir.
Kæru vinir nú er að standa saman og fjölmenna í Mjóddina kl 16:00 – 18:00 á þessum Baráttudegi gegn einelti.
Við vonumst til að sjá sem flesta.
Forvarnarsamtökin Lífsýn.
Af hverju þarf að setja lög gegn einelti?
Skrifað: 27. október, 2011 Filed under: Frétt Færðu inn athugasemdGrein sem birtist í Morgunblaðinu þann 27. október 2011:
Einelti drepur. Við höfum séð nokkur dæmi um slíkt í fjölmiðlum undanfarin ár. Þetta er svo sem ekkert nýtt. Það eina sem er nýtt við þetta er að núna er byrjað að fjalla um mál sem áður var þagað um. Ég spái því að þetta muni aukast enn frekar nú þegar þagnarmúrinn er rofinn. Og það sem er hættulegt við umræðuna er að hún kemur þeirri hugmynd inn hjá börnunum að sjálfsvíg sé raunhæfur möguleiki í stöðunni.
Hvað gæti verið verra en að vera útilokaður af jafningjum sínum? Ætli það sé nokkur sársauki meiri heldur en slík niðurlæging? Að vera barinn og niðurlægður daglega af skólafélögum og fullorðnir gera lítið sem ekkert til að hjálpa þér. Það hafa margir verið í þessum sporum og það eru margir í þessum sporum í dag. Það er ekki endilega þannig að fullorðnir vilji ekki hjálpa. Oft er það svo að fullorðnir sjá ekki hversu alvarlegt ástandið er fyrr en það er orðið of seint að bregðast við. Börn sem hafa orðið fyrir fordómum og fengið á sig brennimerkingu frá samfélaginu eiga mjög erfitt með að snúa við því orðspori. Oft er niðurstaðan sú að þolandi eineltis þarf að flýja skólann. En það hefur þó reynst góð lausn í mörgum tilfellum. Börn eiga oftast nýtt tækifæri í nýjum skóla.
En af hverju þurfa málin að þróast á þennan veg? Af hverju er ekki gripið inn í málin fyrr? Eitt er að börn eru oft ekki tekin alvarlega. Ef barn verður vitni að slælegum viðbrögðum fullorðins við einelti þá er líklegt að það hætti að treysta á fullorðna. Börn, líkt og við flest, leitum ekki með okkar vandamál til einhvers sem við treystum ekki. Á sama tíma refsa gerendur eineltis þolandanum fyrir að segja frá. Er nema von að þolendur læri það fljótt að það getur haft verri afleiðingar að kjafta frá?
Stundum eru gerendur eineltis algjörlega óforskammaðir og einbeittir í sínum óþokkaskap. Þeir neita fyrir allt og ljúga jafnvel að foreldrum sínum. Það vill auðvitað ekkert foreldri trúa því að þeirra barn sé gerandi eineltis. Því miður vill það gerast að foreldrar styðja börnin sín í eineltinu með því að neita að vinna með skólanum og ganga jafnvel svo langt að hóta skólanum og starfsmönnum hans. Þegar slík staða kemur upp þá getur skólinn ekkert gert. Skólinn getur ekki vísað gerendum eineltis úr skóla nema í mjög stuttan tíma vegna þess að það er skólaskylda í landinu. Þetta þýðir þá aftur að gerandinn verður að víkja með tilheyrandi kostnaði fyrir fjölskyldu þolandans.
Er einhver sanngirni í þessu? Eiga þolendur eineltis að þurfa að flýja skóla sinn vegna þess að þeir eiga það á hættu að mæta gerendum sínum, sem hafa beitt þá jafnvel líkamlegu ofbeldi og pyntingum? Þetta er eitt af því sem verður að breyta. En það verður ekki gert nema með lagasetningu. Það verður að breyta lögum á þann hátt að skóli eða barnaverndaryfirvöld geti vísað gerendum eineltis úr skóla eins lengi og þörf krefur. Það er ólíðandi að gerendur og þolendur séu látnir takast í hendur og svo eigi lífið að halda áfram eins og ekkert hafi í skorist. Reynslan sýnir að það virkar aldrei þannig.
Þolendur og forráðamenn þeirra eiga að hafa rétt á því að kæra eineltismál til barnaverndaryfirvalda og þar sé brugðist við snarlega m.a. með því að fjarlægja gerendur úr skóla meðan málin eru rannsökuð. Þegar ég tala hér um gerendur á ég við þá sem hafa orðið uppvísir af hegðun sem þætti glæpsamleg ef um fullorðna einstaklinga væri að ræða. Þar sem einelti er ofbeldi gegn börnum ættu eineltismál að vera barnaverndarmál, án undantekninga. Það er mikil ábyrgð hjá þeim sem vinna með börnum að tilkynna ekki um illa meðferð á börnum til barnaverndaryfirvalda. Í slíkum tilfellum ætti að vera hægt að sækja starfsmenn skóla eða aðra sem vinna með börnum til saka, í það minnsta til að greiða skaðabætur vegna vanræsklu sinnar. Þeir sem vita af illri meðferð gegn börnum en bregðast ekki við þurfa að bera ábyrgð. Ef skólum er gert mögulegt að vísa ofbeldisfullum gerendum eineltis úr skóla, þá ættu starfsmenn skóla að vera komnir með öll vopnin í hendurnar sem þarf til að sinna skyldu sinni og vernda börnin.
Að lokum vill ég minna á eineltisdaginn sem haldinn verður 8. nóvember n.k. En þá ætla nokkrir ráðamenn þjóðarinnar að undirrita sáttmála þar sem því er lofað að vinna gegn einelti. Forvarnir gegn einelti eru nauðsynlegar, en þær eru aðeins önnur hliðin á lausn vandans. Hin hliðin eru bættar aðgerðir til að takast á við einelti þegar það kemur upp. Það er margt í kerfinu sem hindrar það að eineltismál séu leyst á farsælan máta. Það þarf lagasetningu til að breyta kerfinu. Lög gegn einelti eru í gildi í Noregi, Svíþjóð og í flestum ríkjum Bandaríkjanna. Á íslandi eru hinsvegar engin lög gegn einelti. Nú hefur verið stofnaður hópur um þetta málefni. Eineltislög Strax! Málefni hópsins eru unnin að stórum hluta frá systursamtökum í USA sem kalla sig Bully Police. Markmið hópsins Eineltislög Strax! má lesa á síðunni http://www.einelti.com
f.h. hópsins Eineltislög Strax!
Viðar Freyr Guðmundsson
Nánar um eineltisdaginn 8. Nóvember
Skrifað: 21. október, 2011 Filed under: Frétt Færðu inn athugasemdOkkur var að berast bréf:
Þjóðarsáttmáli um baráttu gegn einelti undirritaður
Dagur gegn einelti – 8. nóvember 2011
Verkefnisstjórn í aðgerðum gegn einelti hefur ákveðið að standa fyrir degi gegn einelti 8. nóvember 2011. Verkefnisstjórnin samanstendur af fulltrúum fjármálaráðuneytis, mennta- og menningarmálaráðuneytis og velferðarráðuneytis og er hún skipuð í kjölfarið á útgáfu Greinargerðar um mögulegar aðgerðir gegn einelti í skólum og á vinnustöðum sem kom út í júní 2010.
Í tilefni dagsins verður undirritaður þjóðarsáttmáli um baráttu gegn einelti. Forsætisráðherra er verndari átaksins og munu velferðarráðherra, fjármálaráðherra og mennta- og menningarmálaráðherra undirrita sáttmálann fyrir hönd ríkisstjórnarinnar. Ennfremur eru fjöldi félaga og samtaka aðilar að samningnum.
Við undirritunina verða einnig afhent armbönd sem gerð hafa verið í tilefni dagsins og bera yfirskriftina: Jákvæð samskipti. Þeim verður í kjölfarið dreift til almennings.
Verkefnastjórnin hvetur alla þá fjölmörgu aðila og samtök, sem starfa á þeim vettvangi sem átakið nær til, til þess að taka höndum saman og helga 8. nóvember baráttunni gegn einelti. Sérstaklega er þessu beint til leikskóla, grunn- og framhaldsskóla, félags- og frístundamiðstöðva, auk vinnustaða og stofnana á vegum ríkisins. Ýmislegt er að hægt að gera í tilefni dagsins, s.s. að halda upp á hann með táknrænum hætti eða beina umræðunni að einelti og afleiðingum þess í samfélaginu.
Sáttmálinn verður einnig aðgengilegur á sérstökum vef eftir undirritunina 8. nóvember og þá mun almenningi gefast tækifæri til að skrifa undir hann á vefnum. Slóðin verður auglýst síðar.
Verkefnisstjórnin vonast til að sem flestir í samfélaginu taki þátt í því að setja umræðuna um einelti í brennidepil þennan dag – málefnið er brýnt og til mikils að vinna ef í sameiningu tekst að koma á þjóðarsáttmála um jákvæð og uppbyggileg samskipti.
Nánari upplýsingar um dagskrá Dags gegn eineltis 8. nóvember verða sendar út á næstunni.
Árni Guðmundsson
Verkefnastjóri
Verkefnastjórn um aðgerðir gegn einelti
Samstarfsverkefni Fjármála-, Mennta- og menningarmála- og Velferðarráðuneytis
Eineltisdagurinn verður haldinn 8. Nóvember 2011
Skrifað: 14. október, 2011 Filed under: Frétt Ein athugasemdSjá eftirfarandi bréf frá verkefnanefnd þriggja ráðuneyta um eineltismál:
Ákveðið hefur verið að helga 8. nóvember sem sérstökum degi í baráttunni gegn einelti. Dagskrá þessa dags mun ekki markast af stórviðburðum heldur er það ósk okkar í Verkefnastjórn um aðgerðir gegn einelti að allir þeir fjölmörgu aðilar sem þetta mikilvæga mál varðar láti til sín taka á þessum tiltekna degi hver á sinn hátt. Mikil akkur er í samtökum sem sérstaklega starfa á þessu sviði og bindum við vonir við að viðkomandi félög og samtök standi fyrir atburðum, kynningum og eða því sem viðkomandi telja að komi málstaðnum vel á þessum degi, hvert á sinn hátt. Við óskum einnig eftir að leikskólar, grunn- og framhaldskólar, félags- og frístundamiðstöðvar gefi þessu brýna málefni rými í starfsemi sinni á baráttudeginum. Sama á við um aðila eins og Ungmennafélag Íslands , Skátahreyfinguna, KFUM og K , ÍSÍ , Samfés, Umboðsmann barna, Heimili og skóli , Barnaheill , önnur velferðasamtök, Stéttarfélögin, Reykjavíkurborg , sveitarfélögin og aðra opinbera aðila sem allir eru mikilvægir hlekkir og liðsmenn í baráttunni gegn einelti.
Af tilefni dagsins hefur verið ákveðið að ganga frá (þjóðar) sáttmála um að vinna gegn einelti. Það verður gert með athöfn þar sem fulltrúar Ríkistjórnar Íslands , fulltrúar félaga og samtaka undirrita sáttmálann. Sáttmálinn verður einnig aðgengilegur á sérstökum vef, slóðin er http://www.gegneinelti.is , og þar gefst öllum þeim sem það kjósa kostur á að undirrita sáttmálann. Von okkar er að sem flestir geri slíkt og vonandi tekst að skapa hvatningu í samfélaginu til þess að svo verði – málefnið er brýnt og til mikils að vinna ef okkur öllum í sameiningu tekst að koma á þjóðarsáttmála gegn einelti. Ekki er búið að ganga frá staðsetningu en sennilega verður skóli fyrir valinu og þá skóli sem er til eftribreyttni í aðgerðum gegn einelti. Hugmyndin er einnig lífga upp á athöfnina með tónlistaratriði/um eða öðru menningartengdu efni frá nemendum úr viðkomandi skóla. Við gerum ráð fyrir að samhliða þessari athöfn þá verði félagasamtökum kleyft að kynna starfsemi sína t.d. með samtölum við gesti og gangandi, kynningarefni og stöndum.
Drög að sáttmála
(Þjóðar) Sáttmáli gegn einelti
„Við undirrituð skuldbindum okkur til að þess að vinna að alefli og einurð gegn einelti í samfélagi okkar. Við munum standa vörð um rétt fólks til þess að lifa í sátt og samlyndi við umhverfi sitt . Við munum sérstaklega gæta réttar okkar yngstu þegna sem og allra þeirra hópa samfélagsins sem ekki eiga sér málsvara eða sterka rödd. Við munum, hvert á okkar sviði, hvort sem við erum einstaklingar eða forsvarsmenn samtaka eða stofnanna , skuldbinda okkur til að þessa hafa jákvæð áhrif í nánasta umhverfi okkar, benda á það sem betur má fara, skipta okkur af því sem okkur þykir miður og með því leggja okkar af mörkum til þess að vinna bug á því samfélagslega böli sem einelti er.“
Árni Guðmundsson
Verkefnastjóri
Verkefnastjórn um aðgerðir gegn einelti
Samstarfsverkefni Fjármála-, Mennta- og menningarmála- og Velferðarráðuneytis