Um verkefnið
Forsaga:
Einelti er samkvæmt íslensku orðabókinni þrálát áreitni sem barn verður fyrir frá eigin félögum með stríðni eða ofbeldi. Hugmyndin að því að gera heimildarmynd um þetta fyrirbæri kom upp í góðra vina hópi þar sem allir höfðu reynslu af einelti, ýmist sem gerendur eða þolendur eineltis. Verkefnið hlaut styrk frá Mannréttindaráði Reykjavíkurborgar og dugði það til að fleyta verkefninu af stað.
Markmið:
Alveg frá upphafi var markmið verkefnisins að vera fræðsla fyrir fullorðna: foreldra, skólastarfsmenn, stjórnmálamenn, embættismenn eða aðra sem vinna með börnum eða hafa áhrif á velferð þeirra. Verkefninu var ekki ætlað að vera forvarnarmynd fyrir börn því við lítum svo á að það séu aðrir að sinna því ágætlega. Við lítum svo á að forvarnir munu ekki leysa vandann einar og sér. Verkefninu er heldur ekki ætlað að vera afþreyingarefni sem vekur athygli á málstaðnum, það er líka nóg til af slíku heimildaefni. Verkefnið ‘Allt um Einelti’ miðar að því að fræða þá sem hafa áhuga á eineltismálum um eðli og afleiðingar eineltis. Von okkar er að þessi mynd verði heimild fyrir þá sem vilja fræðast um þennan málaflokk svo árum skipti.
Umfang:
Óhjákvæmilegt er til að ná því markmiði að fjalla eitthvað um þá sem verða fyrir einelti með persónulegum frásögnum, ásamt því að ræða við gerendur eineltis og fagfólk. Til þess að geta tekist á við hvaða vanda sem er þarf að skilja eðli vandans, þar finnst okkur margar aðrar heimildarmyndir missa marks. Af hverju leggja börn í einelti? Hverjir verða fyrir einelti? Hverjir eru líklegir gerendur? Hvað er gert til að sporna við einelti? Og hvað mætti betur fara? Þetta eru stóru spurningarnar sem við munum svara.
Aðgengi:
Myndin er 90 mínútur í heildina. Henni verður dreift fyrst og fremst hér á síðuni einelti.com þar sem almenningur getur séð myndina endurgjaldslaust. Einnig verður hægt að hala myndinni niður í háskerpu fyrir tölvuskjái eða skjávarpa eða sem disk image til að brenna á DVD eða BluRay. Þeir sem ekki treysta sér til að brenna myndina sjálfir á DVD geta svo pantað eintak. VOD kerfi símafyrirtækjana hafa einni samþykkt að hýsa myndina í amk. 2 ár. Svo verður myndinni komið fyrir inni á torrent síðum, en fjöldi manna stundar þær síður. Myndin er gefin út með CC leyfi, þannig að leyfilegt er að afrita myndina í hluta eða heild svo lengi sem uppruna er getið.
Dreifing:
Myndinni verður dreift með því að auglýsa hvar hún er aðgengileg. Það verður gert fyrst og fremst með því að senda tölvupósta á alla skólana í landinu og hvetja starfsfólk til að skoða myndina inni á vefsíðu okkar.
Fjármögnun:
Við höfum fengið styrki sem ná yfir allan útlagðan kostnað, ef frá er talin öll vinna okkar sem standa að myndinni. Við þökkum þeim sem veittu lið. En ef einhver vill þakka okkur með því að bæta við styrkina, þá væri það að sjálfsögðu vel þegið.
Nánari upplýsingar: vidar (hjá) einelti.com